Á spjalli við Klappir: Málfríður Guðný Kolbeinsdóttir

malfridur

Ölgerðin hefur unnið ötullega að því að síðustu misserum að lágmarka vistspor rekstursins; minnka úrgangsmyndun, draga úr eldsneytisnotkun, sporna við óþarfa sóun og svo framvegis. Metnaðurinn er mikill: undirritaður sá stjórnarformann fyrirtækisins halda innblásna ræðu á Umhverfisdegi Samtaka atvinnulífsins um mikilvægi þess að huga betur að því hvaða hráefni er valið í umbúðir, hvernig þær eru endurunnar eða þeim fargað og svo framvegis. Í sem stystu máli skein keppnisskapið í gegn – raunverulegur metnaður, erindi, sannfæring – nokkuð sem við þurfum á að halda til að ef við ætlum að bæta árangur þjóðarinnar á umhverfissviðinu.

Við gægðumst inn um gluggana hjá Ölgerðinni og fræddumst af Málfríði Guðný Kolbeinsdóttiur, sérfræðingi í umbótastjórnun hjá Ölgerðinni, um það í hverju umbæturnar hjá fyrirtækinu hafa falist, nákvæmlega.

Sæl og blessuð, Málfríður, og bestu þakkir fyrir að koma á spjall við okkur hjá Klöppum!

Þið notið tvær hugbúnaðarlausnir frá okkur, grunnlausnina EnviroMaster og einnig HouseMaster. Það væri gaman að heyra aðeins um hvernig þær gagnast ykkur?

Málfríður Guðný Kolbeinsdóttir: Já, við höfum notað hugbúnaðarlausnir Klappa til að halda vel og vandlega utan um kolefnislosunina. Á mælaborði EnviroMaster höfum við nákvæmt yfirlit um stöðuna hverju sinni og getum því sett okkur mælanleg markmið. Við byrjuðum að nota kerfið árið 2017 og árangurinn af umhverfisstarfinu sést því svart á hvítu í mælingunum yfir allt tímabilið.

Að streyma svona rauntímagögnum um alla orkukræfni rekstursins inn í sama miðlæga gagnagrunninn hjálpar okkur þannig að sjá hvernig umhverfismarkmiðum okkar vindur fram. Þetta nýtist okkur líka ekki síst til að taka vel upplýstar ákvarðanir og grípa inn í ef eitthvað óvanalegt kemur upp, þá munar um að vera með svona rauntímagögn fyrir framan sig.

Skjáskot af mælaborðinu í EnviroMaster hugbúnaðarlausn Klappa. Hér sést yfirlitsmynd af allri orkukræfni starfsemi notenda; eldsneyti, rafmagnsnotkun, úrgangur, heitt og kalt vatn og gas. Losunin er svo umreiknuð í kolefnisígildi.

Hverjir innan fyrirtækisins eru helst að nota hugbúnaðinn hjá ykkur?

Málfríður: Það eru auðvitað þau okkar sem sjá um umhverfishliðina, og reyndar líka kannski fyrst og fremst vélstjórarnir okkar – þarna hafa þeir yfirlit um orkunotkunina á öllum vélum, sem er gríðarlega gagnlegt og hjálpar okkur að hagræða og nýta orkuna á sem skynsamlegastan og umhverfisvænastan hátt. Og svo höfum við verið að gera með ykkur ESG-skýrslur, til að standa skil á frammistöðunni gagnvart samfélaginu, og þá nýtist gagnasöfnunin með hugbúnaði Klappa afar vel.

Á kynningarspjaldi frá ykkur kemur fram að fræðsla og þjálfun á umhverfissviði hafi aldrei verið öflugri. Hvað felst í því?

Málfríður: Á hverju ári setjum við saman fræðsludagskrá fyrir allt árið með hliðsjón af þarfagreiningu stjórnenda. Við höfum lagt áherslu á að umhverfismálin séu hluti af þessari fræðslu. Síðstu vikur höfum við verið að bjóða upp á pop-up fyrirlestra um umhverfismál. Til að mynda kom Helgi Lárusson frá Endurvinnslunni og hélt erindi undir sem hét ,,Hvað verður um umbúðirnar okkar?” og einnig Daðey Albertsdóttir sem talaði undir yfirskriftinni ,,Hvað er umhverfiskvíði?”

Þú er sérfræðingur í umbótastjórnun. Hvað felst í því?

Umbótastjórnun felst í því að leita stöðugt leiða til að gera betur í dag en í gær. Við höfum t.d. dregið mikið úr úrgangsmyndum og þar kemur umbótastjórnunin okkar sterk inn.

Dæmi: Öll rýrnun er greind og umbætur gerðar til að koma í veg fyrir að sömu mistök endurtaki sig. Við erum með svokallaða „sérsveit“ sem er hópur þvert á fyrirtækið og hefur sett sér það markmið að minnka rýrnun í fyrirtækinu með því að greina hana jafnóðum og koma í veg fyrir að slík tilvik endurtaki sig.

Hver eru nýjustu markmiðin hjá ykkur í því að bæta frammistöðu fyrirtækisins gagnvart umhverfinu? Hver er stefnan til framtíðar?

Málfríður: Kolefnislosun okkar minnkaði um 34% milli áranna 2017 og 2018 en við settum okkur metnaðarfullt markmið árið 2015 ásamt 103 öðrum fyrirtækjum um minnkun kolefnisspors um 40% til ársins 2030. Við erum hins vegar að sjá fram á að við náum því markmiði núna strax árið 2019 og ætlum því að setja okkur ennþá metnaðarfyllri markmið.

Við settum okkur þrjú stór verkefni fyrir þetta ár sem við erum nú þegar búin að ná. Við höfum kolefnisjafnað allan reksturinn okkar, við erum búin að rafvæða allan áfyllingarbílaflotann og höfum verið að vinna markvisst að mánaðarlegum umhverfismarkmiðum í innri starfseminni. Við erum nú í vinnu að setja okkur stór markmið fyrir næsta ár en þá munum við til dæmis leggja frekari áherslu á það að sölumennirnir okkar velji sér rafbíl.

Nýlega létum við gera vistferilsgreiningu á umbúðunum okkar og kom þar í ljós hversu mikill ávinningur hlýst af því að vera með framleiðslu hér á Íslandi frekar en að flytja inn fullunnar vörur. Við teljum felast mikið samkeppnisforskot í því að halda framleiðslunni okkar á drykkjavörum hér heima í stað þess að flytja inn fullunnar drykkjavörur líkt og sumir samkeppnisaðilar okkar eru að gera að hluta.

Hvað gerirðu sjálf sem manneskja, ef nokkuð, til að breiða út vitund um umhverfismál og reyna að bæta lifnaðarhætti okkar?

Málfríður: Ég var mikið í umhverfismálum í Háskólanum og tók þar virkan þátt í starfsemi Röskvu, stúdentahreyfingu, þar sem ég var meðal annars að berjast fyrir umhverfisbætingu í innri starfsemi Háskólans. T.d. að koma upp skilastöðum fyrir fjölnota bolla, bættar strætósamgöngur og fleira. Ég hélt auðvitað áfram að vinna að umhverfismálum þegar ég kom í Ölgerðina og fyndið að segja frá því að fyrirtækin hér í kringum Ölgerðina sendu í sameiningu hvatningu til strætó um bættar strætósamgöngur. Þannig að slík verkefni halda áfram í fyrirtækjaumhverfinu líka!

Innan fyrirtækis er maður hins vegar að vinna með svo miklu stærri tölur varðandi kolefnisspor en einstaklingar eru að gera á sínu heimili og því er ótrúlega gaman að sjá ávinning umbóta sem gerðar eru á þessu sviði. Sjálf hugsa ég mikið um það hvernig ég get lágmarkað áhrif mín á umhverfið. Ég geri þetta klassíska, reyni að taka strætó 1-2 viku og bílinn á móti, flokka allt heima hjá mér, sel og kaupi föt á mig og barnið mitt á nytjamörkuðum, eins og Extraloppunni eða Barnaloppunni, reyni að hafa grænmetisrétti reglulega í matinn, læt mig dreyma um rafmagnsbíl og reyni að minnka matarsóun með því að nýta allan mat.

Ertu hrifin af því hvernig við mennirnir lifum í samfélögum nútímans? Finnst þér að okkur hafi tekist að hanna greindarleg samfélög eða erum við enn frumstæð í því hvernig við umgöngumst jörðina og jafnvel haldin ranghugmyndum um eðli og magn auðlinda hennar?

Málfríður: Við eigum langt í land í átt að sjálfbærni. Ég held samt að allir séu að reyna að gera sitt besta en það mætti ganga aðeins hraðar. Við eigum eftir að sjá að þau fyrirtæki, sem sitja hjá og gera ekkert í því að verða sjálfbærari, munu verða undir. Það verður samt flóknara og flóknara að ákveða hvað er umhverfisvænt og við verðum að passa að hoppa ekki bara á einhver hughrif eftir því hvaða rödd er háværust hverju sinni. Ég heyrði einhverstaðar t.d. að mest spilaða lagið á Spotify mengaði meira í fyrra heldur en allur leigubílafloti NY. Sama er með plastið sem hefur ákveðin neikvæð hughrif og því verslum við vörur úr áli eða öðru efni sem á endanum mengar kannski meira. Við verðum að vera gagnrýnin á umræðuna. Vistferilsgreining Eflu hjá okkur sýndi t.d. það að rPET og álið koma svipað út gagnvart umhverfinu.

Allt mjög flottar og þarfar ábendingar – takk.

Að lokum: Hvernig sérðu Ísland fyrir þér árið 2050? Stefnun við í rétta eða ranga átt?

Málfríður: Ég held að við munum vera nær því sem að fólk lifði hérna í kringum 1900, nema bara að þá var ástæða þess að fólk nýtti alla hluti einfaldlega fátækt . Í framtíðinni verður það bara vegna þess að við viljum lifa af.

Sverrir Norland
Sverrir Norland
LinkedIn
Reddit